Miðasala hafin á Myrka músíkdaga

vefhaus_new_2014

Miðasalan er hafin á Myrkum músíkdögum!

Hátíðarpassinn kostar 11.900/9.900 kr. með/án opnunartónleika Sinfóníunnar en miðaverð á staka tónleika er 2.500 kr. Hægt er að nálgast miða á harpa.is og midi.is.

Meðal þeirra sem koma fram á hátíðinni er Nordic Affect hópurinn sem tilnefndur er til Íslensku tónlistarverðlaunanna í ár. Nafn hópsins má rekja til þeirrar hefðar barokk-tónlistar að vekja hjá fólki mismunandi hughrif („affects“) í gegnum tónlistarflutning, en hópurinn er bæði þekktur fyrir lofsamlegan flutning á barokktónlist sem og frumflutning nýstárlegra samtímaverka. Listrænn stjórnandi Nordic Affect er Halla Steinunn Stefánsdóttir.

Þá mun Stockholm Saxophone Quartet stíga á stokk á sunnudeginum en verða einnig með sérstaka fjölskyldudagskrá á laugardeginum. Kvartettinn er meðal fremstu samtímatónlistarhópa Svíþjóðar og er þekktur fyrir að ferskan hljóm í saxófónleik og raftónlist.

Einnig snýr aftur í ár hinn margverðlaunaði píanóleikari Megumi Masaki. Masaki er þekkt fyrir hlýja og innilega framkomu en hún hefur komið fram bæði sem einleikari og í kammersveitum víða um heim. Masaki hefur verið ötull talsmaður nútímatónlistar og er jafnframt virtur fræðimaður á sviði tónlistarflutnings, en rannsóknir hennar miða einkum að því að kanna hvernig nýta megi nýjustu tækni til að efla og bæta tónlistarflutning.

Einnig kemur fram Bozzini – strengjakvartettinn frá Kanada. Hópurinn hefur verið þekktur fyrir flutning á róttækri og tilraunakenndri samtímatónlist allt frá stofnun hans árið 1999. Á tónleikum Bozzini Quartet verða flutt ný verk eftir bæði íslensk og erlend tónskáld svo sem Leif Þórarinsson, Jennifer Walshe og John Cage.

Frekari upplýsingar um dagskrá Myrkra músíkdaga má finna á www.darkmusicdays.is/programme.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *