Verk Páls Ragnars Pálssonar flutt í Berlínarfílharmóníunni

Dämmerung fyrir fyrir sópran og strengjasveit var flutt í fílharmóníunni í Berlín þann 4. janúar síðastliðinn af Tui Hirv og strengjasveit þýsk– skandinavísku fílharmóníunnar (Deutsch–Skandinavische Jugend–Philharmonie). Stjórnandi var Simone Bernandini.

prpAndreas Peer Kähler, stjórnandi sveitarinnar, pantaði verkið af tilefni áttræðisafmælis eistneska tónskáldsins Arvo Pärt.

Texti verksins er ljóð eftir Melittu Urbancic (1902–1984). Melitta var austurrískur gyðingur sem flúði ásamt fjölskyldu sinni til Íslands árið 1938 og bjó þar til æviloka. Hún var með doktorsgráðu í bókmenntum, leikkona og skúlptúristi en engin leið var fyrir hana til að koma list sinni á framfæri á Íslandi. Ljóð Melittu sáu ekki dagsins ljós fyrr en á síðasta ári þegar verk hennar voru gefin út í þýðingu Sölva Bjarnar Sigurðssonar í bókinni Frá hjara veraldar / Vom Rand der Welt. Stofnun Vigdísar Finnbogadóttir og Háskólaútgáfan gáfu bókina út.

Þýsk– skandinavíska fílharmónían er árlegt verkefni síðan 1981-1982 þar sem hljóðfæranemendur víðsvegar að úr heiminum koma saman til að þjálfa færni sína í að spila í hljómsveitarspili undir leiðsögn þekktra listamanna. Þema námskeiðsins hefur alltaf verið að kynna norrænar tónbókmenntir fyrir þýskum hlustendum.

Tónleikarnir voru vel sóttir, yfir þúsund manns mættu og verkinu var vel tekið. Bernandini, sem stjórnaði verkinu, leikur á fiðlu með Fílharmóníusveit Berlínar og má segja að reynsla hans í nýrri tónlist hafi skilað sér beint í flutningi hljómsveitarinnar.

Á tónleikunum voru einni leikin Don Juan eftir Richard Strauss, Karuselli eftir Andreas Peer Kähler og Sinfónía No 4 eftir Carl Nielsen.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *