Tónverkamiðstöð í samstarfi við ÚTÓN munu standa fyrir kynningu á íslenskum tónskáldum á Classical:NEXT

header_logo_458x118

Tónverkamiðstöð í samstarfi við ÚTÓN munu standa fyrir kynningu á íslenskum tónskáldum á Classical:NEXT í Rotterdam í maí.

Classical:NEXT er fyrst og fremst söluráðstefna í sígildri og samtímatónlist, með fókus á evrópskan markað. Ráðstefnan er nokkuð ný af nálinni, en fyrsta hátíðin var haldin 2012. Þrátt fyrir það hefur hátíðin hægt og bítandi fest sig í sessi sem einn besti vettvangur fyrir kynningu og tengslamyndun á sviði sígildrar og samtímatónlistar. Þeir sem sækja ráðstefnuna eru fagaðilar, tónskáld, blaðamenn, og aðrir sem starfa á þessu sviði.

Nú stendur til að kynna íslensk tónskáld á ráðstefnunni og verða nokkur tekin fyrir sérstaklega í ár.

Kynningin felst í fundum við lykilaðila í geiranum s.s. listræna stjórnendur hátíða, hljómsveitarstjóra og blaðamenn. Gerður verður bæklingur í tengslum við kynninguna og lögð áhersla á að kynna tónskáldin sem koma fyrir í bæklingum. Tónverkamiðstöð mun hafa aðstöðu á hátíðinni í sameiginlegum bási IAMIC (alþjóðlegu netverki tónverkamiðstöðva).

Einning verður í bæklingnum yfirlit yfir helstu hátíðir, tónleikaraðir, sveitir og hljóðfærahópa í samtímatónlist á Íslandi, en fremst í bæklingnum munu valin tónskáld verða kynnt sem „featured composers“. Ljóst er að bæklingurinn mun lifa lengur og verða nýttur við fleiri tilefni en Classical:NEXT og er því mikilvægt að þeir sem vilja kynna sig betur erlendis sæki um þátttöku í verkefninu.

Fyrir utan kynningarherferðina eru allir sem starfa í sígildri og samtímatónlist á Íslandi sérstaklega hvattir til að sækja ráðstefnuna. Hægt er að kynna sér betur hvaða hag listamenn, útgefendur, hátíðastjórnendur og aðrir geta haft af því að mæta á ráðstefnuna á heimasíðu Classical:NEXT.

Umsókn um þátttöku í kynningarefni Tónverkamiðstöðvar og ÚTÓN

Umsækjendur þurfa að geta sýnt fram á virkni síðustu 12 mánuði, hafa upptökur af verkum sínum tiltækar á netinu og vera með uppfærða heimasíðu eða ÚTÓN prófíl. Mjög mikilvægt er að tónskáldið hafi ákveðin markmið með kynningunni og tilgreini t.d. hvort tónskáldið leitar að endurflutningi á ákveðnum verkum, vilji koma verkum sínum inn á dagskrá hjá ákveðnum hljómsveitum eða hátíðum, séu að leita að útgáfusamningi eða annað.

Umsókn þarf að fylgja:

  • vefslóð á heimasíðu tónskálds
  • vefslóð á upptökur af verkum
  • ferilsaga sem sýnir fram á virkni tónskálds síðustu 12 mánuði
  • markmið með kynningu – tilgreinið að lágmarki 3 og veljið eitt aðalmarkmið og hugmyndir að leiðum að því markmiði

Vinsamlegast sendið umsóknir í tölvupósti á signy@mic.is fyrir 20. apríl.