en

Hvaða þjónustu geta tónskáld fengið hjá Tónverkamiðstöð?

Skráning tónverks

Öllum tónskáldum er frjálst að leggja inn tónverk í Tónverkamiðstöð. Hægt er að leggja inn tónverk til sölu og dreifingar eða einungis til varðveislu. Tónverkamiðstöð tekur engan höfundarétt af þeim tónverkum sem er í safni miðstöðvarinnar og er tónskáldinu áfram frjást að sýsla með tónverkið eins og það vill, t.d. að selja það annars staðar.

Verk lagt inn til sölu og dreifingar

Þegar tónskáld leggur inn verk í Tónverkamiðstöð getur tónskáldið valið hvort verkið er lagt inn til dreifingar og sölu eða einungis til varðveislu. Ef tónskáldið leggur verkið inn til dreifingar fær það tvö prentuð eintök af verkinu (tvær raddskrár/partitúra) í upphafi og svo 10% af allri sölu og 50% af leigu vegna frumflutnings. Hlutur tónskáldsins af sölunni er greiddur út árlega, svo framarlega sem hlutur tónskáldsins nái lágmarksúthlutun sem er 5.000 krónur. Miðað er við almanaksár og nái inneignin ekki lágmarksúthlutun fellur hún niður.

Þessi þjónusta er tónskáldunum að kostnaðarlausu og Tónverkamiðstöð sér um öll samskipti við flytjendur.

Verk lagt inn einungis til varðveislu

Hagur þess að leggja verk inn til varðveislu er tvíþættur. Annars vegar getur Tónverkamiðstöð svarað dagskrárgerðarspurningum um hvaða verk henta ólíkum aðilum s.s. erlendum hljómsveitum eða tónlistarhátíðum, sem getur þá mögulega leitt til flutnings. Hins vegar sér Tónverkamiðstöð um að skrá verkin og ganga frá þeim til endanlegar varðveislu í Landsbókasafni Íslands og stuðlar þannig að varðveislu tónlistarsögu Íslands. Einnig geta tónskáld sem eiga verk hjá Tónverkamiðstöð nálgast rafræn eintök af verkum sínum til að senda með umsóknum, t.d. með tilnefningum til Íslensku tónlistarverðlaunanna.

Skrá tónverk

Öll skráning nýrra tónverka fer fram í gegnum rafrænt skráningarform á heimasíðu Tónverkamiðstöðvar. Tónskáld eru vinsamlegast beðin um að fylla inn rafræna skráningarformið áður en tónverkinu er skilað inn. Smelltu hér til að nálgast skráningarformið.

Hér má einnig lesa leiðbeiningar Tónverkamiðstöðvar um frágang og uppsetningu tónverka. 

Styrkir og önnur tækifæri fyrir tónskáld

Tónverkamiðstöð birtir reglulega á heimasíðu sinni og samfélagsmiðlum fréttir af tækifærum fyrir tónskáld, s.s. residensíum, tónsmíðakeppnum og styrkjum. Einnig sendir Tónverkamiðstöð út rafrænt fréttbréf til þeirra sem eru skráðir á póstlista. 

Styrkjalisti - Styrkjalistann okkar má finna með því að smella hér.

Póstlisti - Skráðu þig á póstlistann okkar með því að smella hér.


Upplýsingasíða um tónskáld

Tónskáld geta óskað eftir aðgangi að þeim upplýsingum sem birtast á svonefndri tónskáldasíðu inn á shop.mic.is. Hér eru greinargóðar leiðbeiningar um hvernig á að bera sig að við að fá aðgang að tónskáldasíðu.


Tenglar á upplýsingar um önnur verkefni Tónverkamiðstöðvar fyrir tónskáld: