Classical:Next

Markmið

  • Að kynna íslenska samtímatónlist á erlendum mörkuðum fyrir lykilaðilum innan geirans.

Framkvæmd

Classical:NEXT er söluráðstefna í sígildri og samtímatónlist, með fókus á evrópskan markað. Ráðstefnan er nokkuð ný af nálinni, en fyrsta hátíðin var haldin árið 2012. Þrátt fyrir það hefur hátíðin hægt og bítandi fest sig í sessi sem einn besti vettvangur fyrir kynningu og tengslamyndun á sviði sígildrar- og samtímatónlistar. Þeir sem sækja ráðstefnuna eru fagaðilar, tónskáld, blaðamenn, hljómsveitarstjórar, listrænir stjórnendur hátíða og aðrir sem starfa á þessu sviði.


Norrænir músíkdagar

Markmið

  • Að kynna íslenska samtímatónlist á erlendum mörkuðum fyrir lykilaðilum innan geirans.

Framkvæmd

Norrænir músíkdagar er tónlistarhátíð sem ferðast á milli stærstu Norðurlandanna fimm, hún var haldin hér á landi í fyrra, 2016. Nú, árið 2017, er komið að Svíþjóð að halda hátíðina, en þeir ákváðu að flytja hátíðina til London í Southbank Center og verður hátíðin haldin þar í tengslum við verkefni Norrænu ráðherranefndarinnar „Nordic Matters“.

Íslandsstofa er með kynningarverkefni fyrir blaðamenn í tengslum við Nordic Matters og mun í samstarfi við Tónverkamiðstöð, ÚTÓN og íslenska sendiráðið í London, halda mótttöku fyrir blaðamenn, listræna stjórnendur, hljómsveitarstjóra og íslensku tónskáldin á hátíðinni. Þessir sömu blaðamenn munu svo koma hingað þegar Cycle og Bókmenntahátíð verða í haust.


Tengslanet

Markmið

  • Að byggja sterkt tengslanet innanlands og erlendis.
  • Að deila tengslaneti Tónverkamiðstöðvar með íslensku tónlistarfólki.
  • Að læra af erlendum aðilum hvernig best má styðja við samtímatónlist á Íslandi.

Framkvæmd

Við vinnum markvisst að því að byggja upp okkar tengslanet og deila því með tónlistarfólki sem vinnur í því að koma sér á framfæri. Þetta er gert með virku starfi innan IAMIC, alþjóðlegra samtaka tónverkamiðstöðva og með því að sækja eins marga viðburði og  hátíðir sem tengjast samtímatónlist hérlendis og erlendis eins og hægt er. Framkvæmdastjóri Tónverkamiðstöðvar situr nú í stjórn IAMIC.


Boð fyrir blaðamenn, listræna stjórn­endur og hljómsveitarstjóra

Markmið

  • Að kynna íslensk tónverk og tónskáld fyrir lykilfólki í samtímatónlist.
  • Að íslensk samtímatónlist sé flutt oftar á erlendum vettvangi.
  • Að auka þekkingu á íslenskri samtímatónlist erlendis.

Framkvæmd

Ljóst er að ein besta leiðin til að kynna mörg íslensk tónskáld í einu er að fá sem flesta erlenda listræna stjórnendur, hljómsveitarstjóra, blaðamenn og erlenda gesti á þær hátíðir á Íslandi sem leggja áherslu á samtímatónlist. Þessi leið er mun ódýrari í framkvæmd en að senda íslenska flytjendur erlendis með íslenska dagskrá. Í dag eru Myrkir músíkdagar og Cycle þar fremst í flokki.

Í samstarfi við ÚTÓN og Íslandsstofu reynir Tónverkamiðstöð að fá sem mest af blaðamönnum, listræna stjórnendur lykilhátíða í samtímatónlist og hljómsveitarstjóra til að koma á þær hátíðir hér á Íslandi sem leggja áherslu á samtímatónlist og flutning á íslenskum verkum.

ÚTÓN og Íslandsstofa sjá að mestu um framkvæmdina, framkvæmdastjóri Tónverkamiðstöðvar veitir ráðgjöf og stuðning við verkefnið.