Í safni Tónverkamiðstöðvar eru 10.000 tónverk á skrá eftir íslensk tónskáld.

Gagnagrunnur/vefverslun, sala og leiga

Markmið

  • Að varðveita íslenskan tónlistararf og gera hann aðgengilegan fyrir almenning, rannsakendur og flytjendur.
  • Að auðga íslenskar tónbókmenntir og auka útbreiðslu þeirra.
  • Að starfrækja safn íslenskra tónverka sem nýtist til kynningar á íslenskri tónlist bæði innanlands og í útlöndum.
  • Að efla safnið sem lifandi vettvang sem eflt getur tengsl á milli tónskálda, flytjenda og fræðimanna og jafnframt örvað samskipti þessara hópa við annað áhugafólk um íslenska tónlist.

Framkvæmd

Í gagnagrunni Tónverkamiðstöðvar sem einnig þjónar sem vefverslun, er hægt að fletta upp upplýsingum um þau 10.000 tónverk sem eru á skrá Tónverkamiðstöðvar. Hægt er að leita eftir hljóðfærum, tónskáldum, flokkum, ártölum og ýmsum öðrum einkennum tónverkanna. Einnig er hægt er að skoða öll tónverkin í heild sinni sem PDF skjal með stórum rauðum stöfum yfir sem á stendur DEMO. Flest verkin eru síðan fáanleg til kaups eða til leigu. Sum verkin eru einungis á vefnum til skoðunar, en ekki til sölu eða leigu. Þau verk eru þá í útgáfu hjá útgáfufyrirtækjum, eða eru lögð inn af tónskáldunum til rannsóknar og varðveislu en ekki til flutnings.

Verk sem eru fyrir 12 hljóðfæri eða færri eru til sölu. Verk sem eru fyrir 13 hljóðfæri eða fleiri eru til leigu


 

Landsbókasafn

Markmið

  • Að varðveita íslenskan tónlistararf og gera hann aðgengilegan fyrir nemendur og rannsakendur.

Framkvæmd

Tónverkamiðstöð á í góðu samstarfi við Landsbókasafn Íslands um varðveislu á íslenskum tónverkum. Öll verk í safni miðstöðvarinnar eru varðveitt í einu eintaki í handritageymslu Landsbókasafnsins. Þessu fyrirkomulagi var komið á eftir að það kom upp bruni í húsnæði Tónverkamiðstöðvar árið 2009. Þá fékkst styrkur til að koma öllum verkum safnisins í rafrænt form og útprentuðum eintökum var komið í Landsbókasafnið. Þetta var mjög mikið framfaraskref en betur má ef duga skal. Nú er ekkert af verkunum aðgengilegt almenningi eða skráð í Landsbókasafninu.

Viðræður eru hafnar á milli Landsbókasafns og Tónverkamiðstöðvar um að Tónverkamiðstöð sjái um að skila inn skylduskilum á tónverkum til bókasafnsins og sjái um að koma ISMN númerum á tónverkin áður en þeim er skilað inn. Við það að taka upp þessi skylduskil myndu verkin verða til í lestrarsalsláni í bókasafninu og því aðgengilegri fyrir rannsakendur, sem nú geta einungis skoðað verkin á vefsíðu Tónverkamiðstöðvar með rauðum stöfum, DEMO, yfir.

Þá myndi miðstöðin einnig afhenda bókasafninu rafræn eintök af tónverkunum til að hafa til skoðunar í lestrasal í sérstakri tölvu þar sem ekki er hægt að afrita gögnin.

 


 

Tölvusetningar

Markmið og tilgangur

  • Að tryggja að verk eftir látin tónskáld séu flutt af sinfóníuhljómsveitum.

Framkvæmd

Stórar sinfóníuhljómsveitir eru með sterka kjarasamninga sem kveða á um að frágangur nótna sé góður. Til að fá verk flutt eftir látin íslensk tónskáld eða tónskáld sem eru orðin svo öldruð að þau geta ekki séð um að koma nótum sínum á tölvutækt form er mikilvægt að til séu leiðir til að koma þessum verkum í flutningshæft form.

Frá og með 1. apríl 2013 hætti Tónverkamiðstöð að greiða fyrir tölvusetningar og á það bæði við um tónskáld sem láta aðra tölvusetja fyrir sig og þá sem tölvusetja sjálfir. Hins vegar þegar sú staða kemur upp að tryggður sé flutningur á verki sem er ekki tölvusett eftir látið tónskáld, eða mjög aldrað tónskáld, sér Tónverkamiðstöð um tölvusetningu á verkinu.

Á árinu 2017 verður unnið að tölvusetningu á Eddu II eftir Jón Leifs þar sem það er einungis til í handskrifuðu eintaki og Sinfóníuhljómsveit Íslands mun flytja það á tónleikum vor 2018.


 

Jón Leifs

Jón Leifs er með sérstakan samning í Tónverkamiðstöð umfram önnur tónskáld. Hann er eina tónskáldið sem er með útgáfusamning við miðstöðina. Útgáfusamningurinn nær til allra verka eftir Jón Leifs.

Markmið

  • Að halda verkum Jóns Leifs á lofti og fá þau flutt sem oftast og víðast.

Framkvæmd

Í samningnum er ákvæði um að eftir dauða Þorbjargar Leifs renni 33% af höfundagreiðslum STEFs til Tónverkamiðstöðvar. Eftir andlát Þorbjargar hafa allar greiðslur frá STEFi farið inn á sérreikning hjá Tónverkamiðstöð og hefur sá sjóður verið nýttur til að viðhalda verkum Jóns, verkefnin fram að þessu hafa öll snúið að tölvusetningum og er nú verið að tölvusetja Eddu II.