YRKJA er starfsþróunarverkefni Tónverkamiðstöðvar og er markmiðið að veita tónskáldum hagnýta reynslu sem getur orðið að hornsteini í starfsferli þeirra. Verkefnið er fyrir tónskáld á fyrri hluta starfsferilsins og er m.a. ætlað að hjálpa til við að brúa bilið milli háskólanáms og starfsferils. Yrkja undirbýr tónskáld fyrir vinnu í faglegu umhverfi hjá hljómsveitum, hátíðum og öðrum listastofnunum hérlendis og erlendis. Þátttaka í verkefninu eflir tónskáldið hvað varðar þróun hæfileika, listrænan metnað, starfsreynslu og tengslamyndun í tónlistargeiranum.

Áhersla er lögð á ferli listsköpunar og munu þátttakendur í Yrkju verða hvattir til að gera tilraunir og þróa hugmyndir sínar og aðferðir við sköpun. YRKJA hlúir að starfsferli tónskáldanna og felur verkefnið í sér ráðgjafaviðtöl í Tónverkamiðstöð um starfsferil tónskáldins. Þegar aðstæður leyfa eru nokkur YRKJU-verkefni í gangi á sama tíma og stendur Tónverkamiðstöð fyrir fundum YRKJU-tónskáldanna þar sem þau deila reynslu sinni af verkefninu og skiptast á hugmyndum.

Hverju verkefni lýkur með frumflutningi tónverksins sem varð til á YRKJU-tímanum, annað hvort á sérstökum tónleikum eða sem veglegum hluta af annarri dagskrá flytjenda.